Leita í fréttum mbl.is

Ekki sérþarfir heldur bara þarfir?

Ég fór á málþing í dag. Sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema af því að málefnið snerti mig persónulega. Yfirskriftin var Hver ræður för? – Félagsleg staða barna með sérþarfir.

Sem móðir drengs á einhverfurófi og með ADHD var mögnuð upplifun að sitja og hlusta á upplifanir annarra foreldra í sömu og/eða svipuðum sporum. Undir þremur erindunum grét ég hreinlega svo átakanlegar eru sumar hverjar reynslusögurnar.

Það ýfðust upp svo mikið af tilfinningum að ég ákvað að fá einhverja útrás fyrir þær hér Smile

Ein móðir steig í pontu og deildi með okkur sögu tveggja daufblindra dætra sinna sem eru félagslega einangraðar í sínum skóla þar sem enginn stuðningur fæst til að efla félagsleg tengsl. 

Einn faðir steig í pontu og sagði okkur frá lesblinda drengnum sínum sem varð fyrir gegndarlausu einelti í skóla sem olli honum slíkri sálarkvöl að hann gafst upp í fyrra og tók sitt eigið líf.

Ein móðir steig í pontu og sagði okkur frá 10 ára drengnum sínum sem er á einhverfurófinu og með ADHD eins og minn sonur. Hennar sonur var útilokaður frá náttfatapartýi bekkjarins þar sem allir fengu popp. Hann var að læra með sínum stuðningsfulltrúa í kompunni undir stiganum þegar hann fann popplyktina en þrátt fyrir spurningar fékk hann ekki svör við því af hverju hann fengi ekki popp eins og hinir. Þegar móðir hans komst að því hvað hafði verið gert gekk hún að sjálfsögðu á kennarann en fátt varð um svör.

Síðan var það móðir drengs með Downs heilkenni sem gekk svo vel með í 1. og 2. bekk en svo fluttu þau og hann þar með um skóla. Þegar þau fóru að hitta skólastjóra þar kom í ljós að enginn vilji var að taka á móti drengnum. Eftir að skólaganga hans hófst sýndi það sig síðan enn betur. Hann átti t.d. ekki að fá að fara með skólafélögunum að Reykjum heldur átti hann að dúsa á bókasafninu í viku í staðinn. Þrátt fyrir að stuðningsaðili hans færi með í ferðina. Drengurinn var mjög vel staddur félagslega og vinsæll af skólafélögunum.

Flestir áttu þessir foreldrar það sameiginlegt að hafa mætt skilningi og stuðningi í leikskóla barnsins. Þegar aftur á móti grunnskólagangan hófst fór að halla undan fæti. Af hverju erum við alltaf að heyra svona dæmi? Það skal tekið fram að ég stiklaði bara á stóru í frásögnum af þessum börnum. Þetta voru ótrúlega áhrifaríkar frásagnir hugrakkra foreldra sem hafa svo sannarlega þurft að berjast fyrir því að börnin þeirra fái þjónustu sem aðrir foreldrar líta á sem sjálfsagðan hlut. Einkunnarorð grunnskólans þar sem drengurinn með Downs heilkennið var hljómar eitthvað á þá leið að allir eiga að koma fram við aðra eins og þeir vilja að aðrir komi fram við sig.

Það er nefnilega þetta með einkunnarorð og fína glansbæklinga um einstaklingsmiðað nám, skóla fyrir alla og hvað þetta fínerí heitir allt. Mér finnst ég heyra aðeins of oft um skóla sem eru með svona gasalega fínar stefnur en starfa síðan ekki eftir þeim hugmyndum eða áætlunum þegar allt kemur til alls.

Hvar liggur vandinn? Af hverju lenda foreldrar barna með sérþarfir ítrekað í þessu um leið og stigið er inn í grunnskólann? Hvað er að klikka?  Fá grunnskólakennaranemar ekki fræðslu um hvernig á að mæta misjöfnum þörfum barna til náms? Ég veit við erum ekki lengur ein af ríkustu þjóðum heims en ansi lifðum við hátt um tíma, hvar sjáum við afrakstur þess í skólakerfinu?

Minn drengur er að æfa fimleika. Eða ætti ég að segja var að æfa fimleika? Í síðustu viku sótti ég hann eftir æfingu og hann var miður sín þegar hann steig inn í bílinn. Hann hafði þá lent upp á kant við þjálfarann sem stuggaði við honum og sagði hann vera stupid (hann er kínverskur, íslendingur hefði sennilega notað íslensku útgáfuna af orðinu heimskur). Hann hafði verið á trampólíninu og kom ekki þegar þjálfarinn kallaði. Hefur sjálfsagt látið bíða leeengi eftir sér ef ég þekki minn mann rétt. Drengurinn tók mjög nærri sér að þjálfarinn hans kallaði hann heimskan og ýtti við honum, hann var eyðilagður og sagðist aldrei fara aftur í fimleika. Nú vitum við foreldrar hans fullvel við hvað er að eiga. Það getur verið hunderfitt að róa piltinn niður þegar fjörið stendur sem hæst og hann fer ekki alltaf eftir fyrirmælum. Réttlætir það framkomu þjálfarans?

Við hringdum að sjálfsögðu í Gerplu daginn eftir þar sem okkur var boðið að Birkir skipti um hóp. En málið er að yngri bróðir hans verður þá væntanlega eftir í þessum hóp þar sem þeir voru saman. Honum býðst ekki að skipta um hóp þar sem enginn annar hópur er til nema sá sem sami þjálfari þjálfar. Ekki víst að honum líði vel með það.

Þetta er bara ördæmi um það sem foreldrar barna með þroskafrávik þurfa stöðugt að horfast í augu við. Börnin eru ekki tekin gild og þeim er ekki sýndur skilningur. Við foreldrarnir þurfum jafnvel að berjast fyrir því að börnin okkar fái lágmarksþjónustu. Þetta er ein ástæðan fyrir því að vinkona mín búsett í Kanada flytur ekki aftur heim til Íslands í bráð þó hana dauðlangi. Hún veit að sonur hennar sem er með Asberger fengi ekki sömu þjónustu og sama skilning og hann fær úti. Eðlilegasti hlutur í heimi þar að ÖLL börn fái mætt sínum þörfum en ansi held ég að við séum aftarlega á merinni hér á Fróninu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

2009 hugsaðu þér!

Ásta Kristín (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 18:42

2 identicon

Samkvæmt lögum eiga allir nemendur rétt á námi við hæfi í grunnskólum og sveitarfélögum er skylt að sjá öllum nemendum fyrir viðeigandi námstækifærum. ( Aðalnámsskrá 2007:8)

 

Einhvern veginn finnst mér að flestir bregðist við þessu atriði með því að auðvelda hjólastólaaðgengi.....og taka á móti nýbúum.

 

góð grein hjá þér Hrund mín og greinilegt að það er langt í land í þessum efnum.

Didda (IP-tala skráð) 21.3.2009 kl. 13:45

3 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Þetta er ömurlegt og ótrúlegt að eins vel upplýst og gott samfélag, sem við eigum að heita, skulum ennþá vera að beita þessum börnum svona misrétti. Þetta á án efa eftir að verða skráð í sögubækur, bara eins og réttindabarátta kvenna ofl. Það er hreint með ólíkindum að börn, sem eru fædd eins og þau eru, skulu ekki njóta sömu réttinda og barnið við hliðina á þeim. Ég verð alveg brjáluð að hugsa um þetta og gott hjá þér, Hrund mín, að taka þetta málefni svona vel upp. Þú ert frábær.

Lilja G. Bolladóttir, 23.3.2009 kl. 21:47

4 Smámynd: Kristín Bjarnadóttir

En svo eigum við kannski bara að vera þakklát fyrir að örvhentir fá að skrifa með vinstri?

Rétt sem þú segir Lilja mín að eftir vonandi ekki svo langan tíma verðum við öll forviða á að þetta hafi viðgengist svona lengi og á þennan hátt.

bestu kveðjur, Didda

Kristín Bjarnadóttir, 23.3.2009 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

270 dagar til jóla

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband